Styrkir til háskólanáms í Evrópu

Það getur verið mjög spennandi og skemmtileg reynsla að læra og búa í útlöndum og víkka þannig sjóndeildarhringinn. Kynnast þannig öðru fólki , öðrum menningarheimum og svo er ansi dýrmætt að læra nýtt tungumál. Flestir íslendingar sem hafa stundað nám erlendis mæla heilshugar með því og hvetja samlanda sína eindregið til að ná sér í svona reynslu, gefist tækifæri til þess. Hins vegar kann þetta að reynast mörgum mjög dýrt enda talsvert dýrara að stunda nám erlendis en hér heima. En sem betur fer gefst mörgum kostur á að sækja námsstyrk í ýmsa sjóði.

Til að mynda gefst íslendingum kostur á að stunda skiptinám við ýmsa erlenda skóla í gegnum áætlanir sem Ísland er aðili að. Helst er þá að minnast á Erasmus, sem styrkir íslendinga til skiptináms í eina eða tvær annir í EFTA- og Evrópusambandslöndunum og Nordplus sem veitir styrki til náms á Norðurlöndunum. Það hefur verið ansi vinsælt hjá íslendingum á seinustu árum að nýta sér þessa möguleika enda þægilegt að þurfa ekki að leita lengra en bara innan Evrópu til að finna ómetanlega reynslu. Þá er einnig möguleiki fyrir íslendinga að fara í skiptinám í skólum utan áðurnefndra svæða, en Ísland er í samningssambandi við mörg lönd úti í hinum stóra heimi sem gefur íslendingum kost á að stunda nám úti um allan heim.

Sumir vilja þó flytjast af landi brott í meira en eina til tvær annir og þá dugar þeim ekki að fá einungis styrk til skiptináms. Þá er hægt að sækja styrki hjá ýmsum fyrirtækjum, stofnunum o.fl. Á vefsíðu farabara.is má finna ógrynni af styrkjum sem íslendingar geta sótt um til náms í hinum ýmsu Evrópulöndum.

Sumum hentar þó best að fá námslán en Lánasjóður íslenskra námsmanna veitir íslendingum lán til háskólanáms og komast fæstir íslendingar í gegnum háskólanám erlendis án þess að kynnast LÍN.