Styrkir til háskólanáms í Bandaríkjunum

Framhaldsnám í Bandaríkjunum getur verið dýr en ómetanleg reynsla. Sé hugað að námi í Bandaríkjunum er ráðlegt að kíkja fyrst á þá fjölmörgu sjóði sem árlega veita styrki til náms þar í landi. Hér er hægt að lesa sér til um þá helstu:

Fullbright stofnunin á Íslandi hefur verið starfandi frá 1957 og var stofnsett eftir samning á milli ríkisstjórna Bandaríkjanna og Íslands um fjárveitingar til náms í báðum löndum. Frá byrjun hafa um 1400 námsmenn frá báðum ríkjum fengið úthlutað styrk til náms, rannsókna eða kennslu. Fullbright sér auk þess um að veita námsráðgjöf, ráðleggingar og upplýsingar um nám og þá möguleika sem bjóðast til náms í Bandaríkjunum. Árlega fá um 6-8 íslenskir námsmenn styrk til að stunda meistara- eða doktorsnám í Bandaríkjunum, en fullur styrkur fyrir 2 ára meistaranám eða doktorsnám er 15.000 dollarar. Einnig er veittur styrkur fyrir 1 árs meistaranám.

Thors styrk geta allir sem hafa klárað, eða eru að klára að vori til nám í grunndeild Háskóla (B.A., B.Sc., B.Ed., eða sambærilegt) sótt um til eins árs í senn. Upphæðin er misjöfn og farið er eftir aðstæðum nemenda og þörf á aðstoð þegar upphæð styrks er metin, en hún er yfirleitt frá 3.500 til 5.000 dollarar.

ASF (American Scandinavian Foundation) eru samtök Norðurlandanna fimm og Bandaríkjanna. Þau voru stofnuð árið 1910 og hafa frá upphafi styrkt um 24 þúsund unga námsmenn frá Norðurlöndunum og Bandaríkjunum til náms, starfsþjálfunnar eða rannsókna í löndunum öllum. Árlega ráðstafar sjóðurinn um 500.000 dollurum í styrki. Til að sækja um styrk frá sjóðnum er hægt að hafa samband við Íslensk-ameríska félagið, en það félag starfar náið með ASF og heldur einnig utan um umsóknir fyrir styrki annarra sjóða.

Að auki er hægt að skoða sérstakar leitarvélar á borð við Educaton USA, en þar er hægt er að leita að námi í Bandaríkjunum og jafnframt fá upplýsingar um þá styrki sem eru í boði.