Styrkir til háskólanáms á Íslandi

Það eru nokkrar leiðir til að fá styrk til náms. Íslandsbanki veitir til dæmis árlega um 5 styrki að upphæð 300.000 kr. til almenns háskólanáms (BA/BS/B.Ed) og 5 styrki að upphæð 500.000 krónur hver fyrir framhaldsnám á háskólastigi.

Landsbankinn veitir einnig árlega námsstyrki, 3 styrki til iðn- og verknáms að upphæð 400.000 kr. hver, 3 styrki til háskólanáms (BA/BS/B.Ed) að upphæð 400.000 kr. hver, 3 styrki til framhaldsnáms í háskóla að upphæð 500.0000 kr. hver og einnig 3 styrki að upphæð 500.000 kr. hver til listnáms.

Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands veita nemendum sem náðu framúrskarandi árangri í framhaldsskóla einnig styrki, skrái þeir sig í nám við skólann. Þennan styrk þarf ekki að sækja um, en nefndir innan skólanna velja þá nemendur sem sýnt hafa fram á framúrskarandi námsárangur í menntaskóla og hafa svo samband.

HR veitir líka verðlaun þeim nemanda sem nær besta árangri í raungreinum á sínu stúdentsprófi. Sá sem hlýtur verðlaunin þarf ekki að borga skólagjöld sín fyrstu önnina í námi.

Einnig er hægt að komast á svokallaðan forsetalista, en þeir nemendur sem skara fram úr hvert próftímabil og klára allavega 30 einingar á önn geta komist á listann og fengið skólagjöld næstu annar felld niður.

Afreksfólk í íþróttum geta fengið styrk fyrir skólagjöldum í allt að 6 annir, en skólinn veitir allt að þremur aðilum þennan styrk. Skilyrði fyrir styrknum er meðal annars að skrá sig í BS nám í íþróttafræði, æfa og keppa reglulega á efsta stigi sinnar íþróttagreinar, geta sýnt fram á æfinga og keppnisáætlun að minnsta kosti 4 vikum fyrir hverja önn sem er staðfest af þjálfara, og fylgja öllum reglum um lyf og lyfjanotkun, sem ÍSÍ setur.

Nýsköpunarsjóður námsmanna er einnig ágætis kostur meðan á námi stendur, en sjóðurinn fær framlög frá mennta og menningarmálaráðuneytinu og einnig framlög frá Reykjavíkurborg. Þaðan geta nemendur sótt um styrk til rannsóknaverkefna eða sérfræðingar fyrirtækja óskað eftir að ráða háskólanema í sumarvinnu við rannsóknir.