Skiptinám opnar margar dyr

Skiptinám fyrir þá sem hafa lokið að minnsta kosti 60 ECTS einingum er spennandi valkostur og veitir reynslu og innsýn sem gleymist seint á lífsleiðinni.

Fyrir þá sem vilja fá ráðgjöf og nánari upplýsingar um skiptinám, hvort sem þeir eru nemendur í Háskóla Íslands eða Háskóla Reykjavíkur, geta leitað til Alþjóðaskrifstofu. Alþjóðaskrifstofa þjónustar einnig erlenda nemendur sem koma hingað í nám.

Eins og fyrr sagði er gerð krafa um að nemandi hafi þegar lokið að lágmarki 60 ECTS einingum með meðaleinkunn 6,5 – 7 (misjafnt eftir deildum) hér á landi, áður en haldið er í nám erlendis. Fyrir sumar deildir, til að mynda Tölvunarfræðideild, er krafa gerð um að hafa lokið 90 einingum. Laganemar geta því miður ekki farið í skiptinám fyrr en á fyrstu önn í meistaranámi.

Þegar kemur að skólum og löndum í boði getur verið erfitt að ákveða sig, úrvalið er það mikið. Hægt er að finna skóla og stunda nám í flestum löndum Evrópu, einnig er vinsælt að fara til Kanada og Bandaríkjanna. Miðað við tölur sækja íslenskir námsmenn helst til Norðurlandanna eða Bandaríkjanna í skiptinám.

Þeir sem vilja prófa eitthvað nýtt geta skoðað framandi lönd. Til dæmis stendur til boða nám í Suður Kóreu, Indónesíu, Ástalíu, Argentínu, Víetnam, Taívan, Kína, Japan, Indlandi og þar fram eftir götum.

Ísland er orðið vinsæll áfangastaður fyrir erlenda skiptinema, hvaðan sem er úr heiminum. Bara í Háskóla Íslands eru skráðir um 1459 erlendir nemendur frá 91 þjóðlandi, og þeim fjölgar ár hvert. Sérstaklega er vinsælt hjá erlendum nemendum að stunda hér nám í jarðfræði, enda skiljanlegt miðað við einstaka jarðfræði Íslands. Tölvunar- og verkfræðideildir háskólanna fá einnig sinn skerf af erlendum nemendum, ásamt félagsvísindasviði og hugvísindasviði.

Einnig er ánægjulegt að sjá hversu margir erlendir nemendur koma hingað í skiptinám til að læra íslensku og sögu Íslands. Aðspurðir hví þeir völdu Ísland af öllum löndum til að stunda nám, nefna flestir að vilja kynnast landi og þjóð á eigin skinni.