Saga Háskólans í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík er einn af stærstu háskólum Íslands og er stærsti einkarekni háskólinn í landinu. Nú stunda á hverju ári um 3500 nemendur nám við skólann á grunn-, meistara- og doktorsstigi. Hann á sér afar eftirtektarverða sögu sem vert er að líta betur á.

Þann 4. september 1998 var Háskólinn í Reykjavík stofnaður, en þó ekki í þeirri mynd sem hann er í dag. Hann var starfræktur undir Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands eða TVÍ og á þeim tíma nefndur Viðskiptaháskólinn í Reykjavík. Nafninu var þó breytt í meira viðeigandi nafn, Háskólinn í Reykjavík tveimur árum seinna.

Skólinn er því tiltölulega ungur en þess má geta að sögu hans er hægt að rekja aftur til ársins 1964. Þá var Tækniskóli Íslands stofnaður með því markmiði að brúa bilið á milli iðn- og háskólamenntunar. Tækniskólinn starfaði órofið til ársins 2005 en hafði þá verið starfandi á háskólastigi í þrjú ár. Þá sameinaðist hann og Háskólinn í Reykjavík og nýr háskóli var tekinn til starfa undir nafni Háskólans í Reykjavík. Þetta skipti sköpun fyrir starf skólanna því nú störfuðu fjórar deildir undir sama nafni: kennslufræði- og lýðheilsudeild, tækni- og verkfræðideild, viðskiptadeild og lagadeild.

Kennsla skólans hafði hingað til farið fram í mörgum mismunandi byggingum. Hinn nýji sameinaði skóli starfaði í byggingu að Ofanleiti, á Höfðabakka, í Reykjanesbæ og í Húsi verslunarinnar. Það má því segja að aðstæður hafi ekki verið sem bestar á þeim árum. Nú starfar skólinn við einar bestu aðstæður sem finnast í Evrópu í nýrri byggingu að Menntaveg 1 í Nauthólsvík. Byggingin var tilbúin til notkunar árið 2010 og þar með var starf skólans loksins komið undir eitt þak.

Nú heldur Háskólinn í Reykjavík uppi samstarfi við hinar ýmsu stofnanir, aðra háskóla bæði innanlands og utan, starfar með grunn- og framhaldsskólum, og ýmsum öðrum stofnunum. Hann stendur fyrir ýmsum viðamiklum rannsóknum og verkefnavinnu og er virkur þátttakandi í samfélaginu, háskólinn hefur sannarlega haft mikil áhrif á þjóðfélagið á Íslandi.