Hver er staðan á íslenskum menntamálum?

Fjárlagafrumvarpið í brennidepli

Menntun á Íslandi er sívinsælt málefni og þá sérstaklega upp á síðkastið í kringum birtingu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019. En eins og sjá mátti í grein Morgunblaðsins ríkti mikil óánægja með nýjasta frumvarpið, enda er það ekki í samræmi við þau loforð sem komu fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að fjármögnun háskólans næði Norðurlöndunum á allra næstu árum. En eins og kemur fram í greininni eru miklar áhyggjur innan Háskólans að með þessu áframhaldi munum við ekki ná nágrannaríkjum okkar ef fjármögnun verður ekki meiri en raun ber vitni. Stúdentaráð bendir þar að auki á að: ,,… á Norður­lönd­un­um eru heild­ar­tekj­ur há­skóla á ársnema að meðtali 4,4 millj­ón­ir á ári en aðeins 2,6 millj­ón­ir á Íslandi.”

Fjármögnun Háskóla Íslands er ekki nýtt mál í deiglunni enda hefur undirfjármögnun Háskólans verið mörgum áhyggjuefni í dágóðan tíma eins og hefur komið fram í fréttum þessa árs. En það er augljóst hversu langt er í land ef við eigum að ná OECD og hinum Norðurlöndunum í fjármögnun á hvern nemanda.

Góðar fréttir í leikskólakennarafræðum

Ekki eru þó allar fréttir neikvæðar, en mjög jákvæðar fréttir hafa nýlega borist um málefni leikskólakennara. Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að leikskólar hafa verið mikið undirmannaðir seinustu misseri og það hlýtur því að vera mikið fagnaðarefni fyrir foreldra sú mikla aukning sem hefur verið af nemendum í leikskólakennarafræði í HÍ en fjölgun nemenda á síðastliðnum 2 árum er 86%. Í ár hófu 69 nemendur grunnnám í leikskólakennarafræðum við Hí en þeir voru ekki nema 37 árið 2016. Þar að auki stendur til að gera námið aðgengilegra svo auðveldara sé fyrir fólk í vinnu að stunda námið. Eins og haft er eftir Kolbrúnu Þorbjörgu Pálsdóttur, forseta menntavísindasviðs Háskóla Íslands: ,,fjölga tæki­fær­um fyr­ir starf­andi leiðbein­end­ur í leik­skól­um til að hefja há­skóla­nám.” Nú stendur því yfir undirbúningur fagháskólanáms í leikskólafræði.

Námsleiðir í boði í Háskólanum í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík býður upp á næstum því 700 námskeið á ári, þar af 500 í grunnnámi.

Háskólinn býður einnig upp á svokallaðan háskólagrunn, en það er eins árs nám fyrir þá sem hafa ekki lokið stúdentsprófi, en langar í háskólanám. Hægt er að velja fjóra grunna eftir því hvaða nám er stefnt á í framtíðinni: Tækni- og verkfræðigrunn, sem er undirbúningsnám fyrir tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðigrunn, sem er undirbúningsnám fyrir tölvunarfræðideild, viðskiptafræðigrunn, sem er undirbúningur fyrir nám í viðskiptafræðideild og lögfræðigrunn, sem er undirbúningur fyrir nám í lögfræðideild. Í skólanum er bekkjarkerfi svo nemendur hafa sömu samnemendur út allt skólaárið.

Þeir sem þegar hafa lokið stúdentsprófi, til dæmis af hugvísindabraut en vilja bæta við sig til að undirbúa háskólanám í raungreinadeildum, geta bætt við sig námskeiðum í raungreinum, til dæmis eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði og byggt upp sterkan grunn fyrir komandi háskólanám.

Annað nám í Háskóla Reykjavíkur er afskaplega fjölbreytt. Námslínur skiptast í tvennt, grunnnám (BSc og BA) og meistaranám (MSc, ML, MBA, MPM og fleira)

Grunnnámið hefur ýmsa spennandi valkosti í boði. Auk hins hefðbundna 3 ára grunnnáms í hagfræði, íþróttafræði, lögfræði, sálfræði, tölvunarfræði, verkfræði, viðskiptafræði og iðnfræði/byggingarfræði býður HR einnig fjölmargar styttri námsleiðir sem síðan má bæta við síðar. Þessar styttri námsleiðir er stundum hægt að taka í fjarnámi, eða samhliða vinnu og lýkur með diplómagráðu:

Haftengd nýsköpun er eins árs diplómanám þar sem miðstöðin er Vestmannaeyjar. Nemendur öðlast reynslu og þekkingu á viðskiptafræði, sjávarútvegsfræði og er áhersla lögð á nýsköpun.

Iðnfræði er 90 ECTS eininga diplómanám, sem hægt er að taka í fjarnámi samhliða vinnu og ljúka á 3 árum.

Diplómanám í tölvunarfræði er 120 ECTS eininga nám sem samsvarar tveimur fyrstu árunum í BSc-námi í tölvunarfræði. Námið stendur til boða í dagskóla og/eða með vinnu. Námið er einnig hægt að stunda á Akureyri í samvinnu við Háskólann á Akureyri.

Opni háskólinn býður að lokum upp á stutt námskeið sem henta atvinnulífinu, og þar er af nógu að taka.