Nýjustu fréttir um aukningu í fjarnámi – hugsanlega tækifæri til örnáms í framtíðinni?

Hver þekkir það ekki að vera í námi þar sem skylda er að taka fjölda námskeiða sem eru tiltölulega ótengd þeirri menntun sem viðkomandi er að sækjast eftir? Væri ekki hentugt að geta eytt skemmri tíma í nám en samt sem áður fengið þá þekkingu sem við erum að leitast eftir að fá út úr viðkomandi námi?

Örkennsla (micro learning) er tiltölulega nýtt fyrirbæri sem enn er í mótun. Örkennsla á að gefa svokallaða örgráðu (micro degree). Eins og er veitir örgráða einungis viðurkenningu sem er mjög sérhæfð ákveðnu starfi.

Örkennsla þýðir ekki bara lítil eða samþjöppuð kennsla heldur snýst örkennsla um að deila með nemendum nákvæmlega réttu magni upplýsinga fyrir viðkomandi sérsvið og engu umfram það. Örkennsla er sérstaklega hentug til að bæta ofan á hærra menntastig. Þessi gerð lærdóms er sérstaklega hagkvæm og viðskiptavæn þar sem ekki er verið að eyða tíma í efni sem er ótengt þeirri þröngu sérhæfingu sem námsmaðurinn leitast eftir. Örkennsla gerir námsmönnum kleift að taka inn nýja þekkingu og hæfni á mun skemmri tíma. Örkennsla er frábær valmöguleiki fyrir fólk sem vill auka þekkingu sína á ákveðnu sviði jafnóðum og það þarf á henni að halda.

Örkennsla fer yfirleitt fram á netinu þar sem nemendur geta stundað fjarnám. Á Íslandi hefur fjarnám aukist gríðarlega mikið undanfarin ár. Háskólinn á Bifröst er sú menntastofnun þar sem fjarnemar hafa aukist hlutfallslega mest en nú er komin sú staða að 85% nemenda við Bifröst stunda fjarnám. Hugsanlegt er að í framtíðinni verði Bifröst því einungis fjarnámsskóli þar sem allt nám yrði þá kennt í gegnum internetið. Fjarnám gerir nemendum kleift að stunda nám hvaðan sem er og auðveldar fólki að bæta við sig menntun samhliða vinnu.

Það væri áhugavert að sjá Bifröst gera tilraunarverkefni á örkennslu og bjóða uppá örgráður á hærra stigi í framtíðinni. En Bifröst er viðskiptaháskóli sem er í farabroddi á Íslandi þegar kemur að kennslu í fjarnámi og tileinkar sér nútímalega kennsluhætti.