Námsleiðir í boði í Háskólanum í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík býður upp á næstum því 700 námskeið á ári, þar af 500 í grunnnámi.

Háskólinn býður einnig upp á svokallaðan háskólagrunn, en það er eins árs nám fyrir þá sem hafa ekki lokið stúdentsprófi, en langar í háskólanám. Hægt er að velja fjóra grunna eftir því hvaða nám er stefnt á í framtíðinni: Tækni- og verkfræðigrunn, sem er undirbúningsnám fyrir tækni- og verkfræðideild, tölvunarfræðigrunn, sem er undirbúningsnám fyrir tölvunarfræðideild, viðskiptafræðigrunn, sem er undirbúningur fyrir nám í viðskiptafræðideild og lögfræðigrunn, sem er undirbúningur fyrir nám í lögfræðideild. Í skólanum er bekkjarkerfi svo nemendur hafa sömu samnemendur út allt skólaárið.

Þeir sem þegar hafa lokið stúdentsprófi, til dæmis af hugvísindabraut en vilja bæta við sig til að undirbúa háskólanám í raungreinadeildum, geta bætt við sig námskeiðum í raungreinum, til dæmis eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði og byggt upp sterkan grunn fyrir komandi háskólanám.

Annað nám í Háskóla Reykjavíkur er afskaplega fjölbreytt. Námslínur skiptast í tvennt, grunnnám (BSc og BA) og meistaranám (MSc, ML, MBA, MPM og fleira)

Grunnnámið hefur ýmsa spennandi valkosti í boði. Auk hins hefðbundna 3 ára grunnnáms í hagfræði, íþróttafræði, lögfræði, sálfræði, tölvunarfræði, verkfræði, viðskiptafræði og iðnfræði/byggingarfræði býður HR einnig fjölmargar styttri námsleiðir sem síðan má bæta við síðar. Þessar styttri námsleiðir er stundum hægt að taka í fjarnámi, eða samhliða vinnu og lýkur með diplómagráðu:

Haftengd nýsköpun er eins árs diplómanám þar sem miðstöðin er Vestmannaeyjar. Nemendur öðlast reynslu og þekkingu á viðskiptafræði, sjávarútvegsfræði og er áhersla lögð á nýsköpun.

Iðnfræði er 90 ECTS eininga diplómanám, sem hægt er að taka í fjarnámi samhliða vinnu og ljúka á 3 árum.

Diplómanám í tölvunarfræði er 120 ECTS eininga nám sem samsvarar tveimur fyrstu árunum í BSc-námi í tölvunarfræði. Námið stendur til boða í dagskóla og/eða með vinnu. Námið er einnig hægt að stunda á Akureyri í samvinnu við Háskólann á Akureyri.

Opni háskólinn býður að lokum upp á stutt námskeið sem henta atvinnulífinu, og þar er af nógu að taka.