Kötlugos í vændum?

Eldfjallið Katla hefur verið að fá athygli frá erlendum fréttamiðlum, enda löngu orðin heimsfræg og grannt er fylgst með hverjum skjálfta og nýjustu mælingum allstaðar í heiminum.

Hópur vísindamanna frá Íslandi og Bretlandi hafa undanfarin 3 ár mælt gasútstreymi frá Kötlu, sem er ein stærsta megineldstöð landsins, og birtu niðurstöður sínar nýverið. Mælingarnar komu Evgenia Ilyinskaya eldfjallafræðingi og öðrum vísindamönnum mjög á óvart, en þeir notuðu sérútbúna rannsóknarflugvél til verksins. Í ljós koma að Katla framleiðir gríðarlegt magn af koltvísýringi á hverjum degi, allt upp í 20 kílótonn á dag. Katla er því komin í þriðja sæti yfir þau mældu eldfjöll, sem losa hvað mest af gasi á heimsvísu.

Mælingarnar hafa þó staðið yfir í það stuttan tíma, að ekki er hægt að bera gögnin saman við eldri gögn, en fyrsta mælingin á Kötlu var gerð árið 2016 og hefur svo verið framkvæmd árlega eftir það. Það er til dæmis ekki hægt að vita hvort þetta magn af gasi sé eðlilegt fyrir Kötlu og hvert magnið var í fortíðinni. Þekkt er frá öðrum eldfjöllum heimsins, svo sem á Havaí, að gasmagn getur aukist nokkrum vikum eða árum fyrir eldgos. Metan fannst einnig í einhverjum mæli og megn lykt af brennisteinsvetni hefur fundist nálægt jöklinum.

Birting þessara niðurstaða vísindamannanna varð tilefni nokkurra frétta í æsifréttastíl, sérstaklega frá erlendum fjölmiðlum, um að risagos frá Kötlu væri yfirvofandi.

Aðrir jarðfræðingar, þar á meðal Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands sá sig knúinn til að birta grein og gefa það út að þessi rannsókn, þó áhugaverð sé, gefi á engan hátt til kynna að gos sé í aðsigi. Magn gasútstreymis getur ekki sagt fyrir um stærð næstu eldgosa. Katla gæti þess vegna virkað sem ventill fyrir gosbeltið sunnan megin, og hafi losað þetta mikið magn gass í árhundruð.

En það er augljóst að rannsaka þarf Kötlu betur og gera miklu fleiri og ítarlegri mælingar á öllu svæðinu.