Hver er staðan á íslenskum menntamálum?

Fjárlagafrumvarpið í brennidepli

Menntun á Íslandi er sívinsælt málefni og þá sérstaklega upp á síðkastið í kringum birtingu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019. En eins og sjá mátti í grein Morgunblaðsins ríkti mikil óánægja með nýjasta frumvarpið, enda er það ekki í samræmi við þau loforð sem komu fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að fjármögnun háskólans næði Norðurlöndunum á allra næstu árum. En eins og kemur fram í greininni eru miklar áhyggjur innan Háskólans að með þessu áframhaldi munum við ekki ná nágrannaríkjum okkar ef fjármögnun verður ekki meiri en raun ber vitni. Stúdentaráð bendir þar að auki á að: ,,… á Norður­lönd­un­um eru heild­ar­tekj­ur há­skóla á ársnema að meðtali 4,4 millj­ón­ir á ári en aðeins 2,6 millj­ón­ir á Íslandi.”

Fjármögnun Háskóla Íslands er ekki nýtt mál í deiglunni enda hefur undirfjármögnun Háskólans verið mörgum áhyggjuefni í dágóðan tíma eins og hefur komið fram í fréttum þessa árs. En það er augljóst hversu langt er í land ef við eigum að ná OECD og hinum Norðurlöndunum í fjármögnun á hvern nemanda.

Góðar fréttir í leikskólakennarafræðum

Ekki eru þó allar fréttir neikvæðar, en mjög jákvæðar fréttir hafa nýlega borist um málefni leikskólakennara. Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að leikskólar hafa verið mikið undirmannaðir seinustu misseri og það hlýtur því að vera mikið fagnaðarefni fyrir foreldra sú mikla aukning sem hefur verið af nemendum í leikskólakennarafræði í HÍ en fjölgun nemenda á síðastliðnum 2 árum er 86%. Í ár hófu 69 nemendur grunnnám í leikskólakennarafræðum við Hí en þeir voru ekki nema 37 árið 2016. Þar að auki stendur til að gera námið aðgengilegra svo auðveldara sé fyrir fólk í vinnu að stunda námið. Eins og haft er eftir Kolbrúnu Þorbjörgu Pálsdóttur, forseta menntavísindasviðs Háskóla Íslands: ,,fjölga tæki­fær­um fyr­ir starf­andi leiðbein­end­ur í leik­skól­um til að hefja há­skóla­nám.” Nú stendur því yfir undirbúningur fagháskólanáms í leikskólafræði.