Háskólamenntun á Íslandi

Háskólamenntun

Á Íslandi eru nokkrir mjög góðir skólar sem bjóða upp á menntun á háskólastigi. Flestir skólarnir bjóða upp á námsleiðir til bachelor gráðu, masters gráðu og doktors gráðu. Samkvæmt reglugerðum þurfa allir verðandi nemendur að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi til að fá inngöngu í grunnnám í háskóla á Íslandi. Þar að auki fara sumir skólar eða sumar brautir fram á sérstök skilyrði eða inntökupróf til að ákvarða inngöngu í námið.

Háskólar á Íslandi

Háskólarnir sem eru starfandi á landinu eru sjö, þar af eru fjórir opinberir og þrír einkareknir skólar. Opinberir háskólar á Íslandi eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Hólaskóli og Landbúnaðarháskóli Íslands. Einkareknir skólar eru Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst. Þar að auki er alþjóðlegi skólinn Háskóli Sameinuðu Þjóðanna með starfsemi á Íslandi. Greiða þarf skólagjöld í einkarekna skóla en í opinberum háskólum þarf einungis að greiða skráningargjöld.

Tungumál

Flestar námsbrautir í háskólunum á Íslandi eru kenndar á íslensku. Í flestum háskólum á Íslandi er þó boðið upp á einhverjar námsleiðir sem eru kenndar á ensku, eða möguleika á einhverjum tímum sem kenndir eru á ensku. Auk þess eru nokkrir háskólar með íslenskukennslu fyrir alþjóðlega nemendur og skiptinema. Hins vegar er námsefni oft á ensku þar sem íslenskt efni á háskólastigi er stundum erfitt eða ómögulegt að nálgast.

Fjarnám

Í nokkrum skólanna er boðið upp á fjarnám í ákveðnum deildum, sem er góður valmöguleiki fyrir þá sem eiga ekki kost á að mæta í reglulega tíma eða búa langt í burtu. Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst eru með stærstu deildirnar fyrir fjarnámsbrautir af háskólunum á Íslandi.

Lán

Hægt er að sækja um lán til háskólamenntunar á Íslandi í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna. Allir sem eru skráðir í háskólanám eiga rétt á láni og lánasjóðurinn reiknar út hversu mikið magn hver og einn á rétt á fyrir hvert stig háskólanámsins og miðar við hversu mikið hver fær í laun og hversu dýrt námið er.