Fréttir frá Íslandi

Hvað er að frétta? Fátt hefur verið meira í fréttum undanfarið en veðrið. Fæstu sólskinsstundir í júní í Reykjavík í heila öld. Þær mældust þó færri árið 1914.

Handrit

Skemmtilegu fréttirnar eru af heimsókn tveggja handrita til upprunalandsins íslands. Þar eru Orms­bók, eitt höfuðhand­rita Snorra-Eddu og einnig Reykja­bók Njálu sem er elsta nær heila hand­rit sög­unn­ar. Handritið af Njáls sögu var sýnt í sjónvarpi, og er engu líkara en það sé prentað með skrautletri. Handritin eru til sýnis í Árnastofnun þar til þau verða send aftur til Danmerkur. Flestir héldu að frægur leikari væri mættur á Keflavíkurflugvöll vegna alls viðbúnaðarins. Vonandi sjá sem flestir sér fært að skoða þessi handrit meðan þau eru hér á landi.

Ísjaki

Svo er stór ísjaki á Húnaflóa. Það kemur á óvart nú í júlímánuði eftir fréttir um að allur ís eigi að hverfa.

Bæjarstjórar

Hinum megin á landinu, í Ölfusi, var auglýst eftir bæjarstjóra þar sem sjálfstæðismenn höfðu náð meirihluta í síðustu kosningum. Það vakti athygli að fimm fyrrverandi bæjarstjórar annarra bæjarfélaga sóttu um stöðuna.

Knattspyrna

Fótboltinn hefur verið á sínum stað. Samt breyttist eitthvað við að Ísland féll úr leik. Allir eru ánægðir með liðið, það stóð sig frábærlega og vakti verðskuldaða athygli með þátttöku sinni. Núna eru það Englendingar sem koma á óvart og fá jafnvel íslenska fánann lánaðan í leiðinni. Svíar komust áfram í sextán liða úrslit og sendiherra Svíþjóðar komst á forsíðu Fréttablaðsins fyrir að fagna úrslitunum.

Funahöfði

En slæmu fréttirnar voru um Funahöfða og íkveikjutilraun þar. Bjarni Kjart­ans­son, sviðsstjóri for­varna­sviðs hjá slökkviliðinu kom fram í viðtali og gagnrýndi þá aðstöðu sem margir búa við. Húsnæðið í Funahöfða mun vera ósamþykkt, en þrátt fyrir það býr fjöldi fólks í húsinu. Það var upphaflega iðnaðarhúsnæði sem var breytt í íbúðarhúsnæði. Þá kom í ljós að önnur útgönguleið af tveimur var læst og hefði það getað stefnt íbúunum í hættu.