Áhrif Brexit á tengsl Íslands við Evrópu

Í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní árið 2016 kaus meirihluti bresku þjóðarinnar um útgöngu úr Evrópusambandinu (exit bretlands = Brexit). Áætlað er að Bretland muni fylgja eftir ákvörðun sinni og þar með ganga út úr sambandinu í mars 2019. En þá er stóra spurningin, hvaða afleiðingar getur þetta haft fyrir okkur á Íslandi?

Spáð hefur verið fyrir um að þetta geti haft miklar afleiðingar í för með sér fyrir Ísland. Kjarninn greindi frá því í júní 2016 að áhrifin gætu orðið mikil á Íslandi vegna þess hversu mikil viðskipti Íslendingar hafa stundað við Breta í gegnum tíðina. Hafði Kjarninn það svo eftir Eiríki Bergmanni prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands að ,,Grund­völlur íslensks efna­hags­lífs hefur meðal ann­ars verið að selja Bretum þorsk í Fish and chips – sjálfan þjóð­ar­rétt­inn.” Þá veltir hann því fyrir sér hvort að með þessu gæti mögulega orðið til lítið Evrópusamband með Noregi, Íslandi, Sviss, Liechtenstein og Bretlandi og þá kannski einnig örríkjunum eins og Andorra og San Marino.

Eins og flestir Íslendingar vita þá er Ísland ekki í evrópusambandinu heldur í EFTA en er þó meðlimur af evrópska efnahagssvæðinu rétt eins og önnur ríki evrópusambandsins og EFTA. En þetta samkomulag hleypir EFTA ríkjunum að innri markað ESB og innleiðir svokallað fjórfrelsi (frelsi til flutninga vöru, fjármagns, þjónustu og fólks) milli ríkjanna sem teljast til evrópska efnahagssvæðisins. Með brexit mun þó Bretland hverfa af evrópska efnahagssvæðinu og mun þá Ísland þurfa að semja að nýju við Bretland varðandi viðskiptasamninga þar á milli. Íslendingar og Bretar munu því þurfa að koma á einhvers konar samningi sem innleiðir fjórfrelsið á milli landanna. Hafi ríkin áhuga á því.

Þar sem Bretland var eitt þeirra ríkja Evrópusambandsins sem Íslendingar stunduðu hvað mest viðskipti við má segja að með Brexit fjarlægist Ísland sambandið enn frekar. Enda helsta tenging Íslands við sambandið eru þau viðskipti sem Ísland hefur átt við ríki innan sambandsins.